"Marin français"

Þegar gengið er um kirkjugarðinn í Ploubanzlanec hjá Paimpol, þar sem háir veggirnir eru þaktir minningartöflum um Íslandssjómennina, - "disparu dans la mer d'Islande", tug eftir tug skipshafna, frá sjötugum mönnum í tólf ára drengi, hvolfist yfir lesanda þessara nafna hvílíkan ægitoll Íslandshaf heimti af þessari fátæku bretónsku byggð. Í þeim kirkjugarði eru nöfnin, en engar grafir; hér heima eru grafirnar en engin nöfn. Flestir eru þó þeir sem engum rekum var á kastað.

O 106

Lengi framan af var hér í Reykjavík enginn franskur kirkjugarður, svo sem var á Fáskrúðsfirði, heldur voru lík franskra sjómanna jörðuð hér og þar um garðinn eftir því sem til bar. En eftir að franska skútuöldin hófst að ráði, upp úr miðri síðustu öld, og um fimm þúsund franskir sjómenn börðust við vetrarveðrin uppi undir Íslandsströndum ár hvert, fór þeim að sama skapi fjölgandi sem ekki áttu afturkvæmt. Skip hurfu í sortann og sáust aldrei framar, önnur braut á ströndum og lík eða dauðvona menn dregnir undan sjó; aðrir voru fluttir í land veikir eða stórslasaðir, og íslensk mold bjó þeim náttstað sem ekki hjörðu. Flestir eru þeir legstaðir á Austfjörðum, Fáskrúðsfirði og Norðfirði, og um Vestfirði, en í Reykjavík var einnig reistur franskur spítali og Hólavallagarður tók við þeim sem ekki stigu á skipsfjöl framar. Því varð það nú úr, að frönskum sjómönnum var helgaður sérstakur reitur í garðinum, spölkorn suðvestur af Líkhúsinu, sem nú er merktur O 106. Reitur þessi var fast uppi við vesturgirðingu garðsins þegar hann var tekinn í notkun, og þar var grafið eins þétt og framast mátti. Gamlir menn muna til þess, að þar var þúst við þúst; á sumum var samanrekinn kross úr spýtum, en flestir þó fallnir og lágu sem brak milli leiðanna. Sjaldnast voru á þeim nöfn eða ártöl. Væri nokkuð á þá letrað, stóð á þeim "Marin français", "Frakkneskur sjómaður", og hefur Guðmundur skólaskáld þá áletrun að kvæðisheiti:

Vestast í Víkur-garði
viðkunnalegast mér finnst.
Þar eru lægstu leiðin, -
leiðin sem á ber minnst.

Ótal þar er að líta
einfalda krossa úr tré.
Letrað er á þá alla
aðeins: Marin français.

Ofan tek ég í auðmýkt,
ósjálfrátt beygi kné. -
Angelus álengdar hljómar. --
- Adieu, marin français!

(Guðmundur Guðmundsson: Ljóðasafn II, Rvík 1954, 43-44.)

Minnisvarði yfir Frakkneska sjÛmennEkki er vitað af hverju sú hugljómun kviknaði með ríkisstjórn Íslands árið 1953 að reisa minnisvarða í franska reitnum í Hólavallagarði. Þetta snögga menningarbragð var meira að segja svo hreinlátt, að félög voru ekki látin sníkja af almenningi til framkvæmdanna. Og ekki var hitt undrið síðra, að nú var leitað til bestu manna um minnisvarða þennan, steinsmiðju Magnúsar Geirs Guðnasonar og sona hans.
Ársæll Magnússon hafði numið steinsmíði af föður sínum, lauk sveinsprófi árið 1932, en stundaði síðan framhaldsnám í steinsmíði í Þýskalandi, þar sem hann kynntist ýmissi nýrri verktækni sem hann flutti með sér heim, steinasög og vél til að gljáfægja steina. En vafalaust hefur Ársæll einnig kynnst þar nútímalegum minnisvörðum, þar sem efni, form og stærð koma í stað eldri og táknrænni viðhorfa. Og það var einmitt að þeim leiðum sem hann og Knútur R. Magnússon bróðir hans tóku nú að vinna að varðanum um frönsku sjómennina. Steininn sjálfan, mikinn drang, tóku þeir í námu fyrir ofan Suðurlandsbraut, en "afsettu" hann, þ.e. hjuggu hliðar hans til, án þess að raska meginforminu. Nokkru áður hafði Ársæll komið sér upp tækjum til sandblásturs, og var nú horfið að þeirri aðferð um leturfletina, sem eru all djúpir, með upphleyptum stöfum. Sjálf áletrunin lá að sjálfsögðu fyrir, en stafagerðin var teiknuð á þeirra vegum og má hiklaust kalla að hún svari heildarverkinu sérstalkega vel. Þótt leturgerðin sé ein og söm, einskonar þykk steinskrift, er hún óstöðluð og frálsleg, og svo sem í fornum áletrunum, eru krossar noðarið til línufyllingar. Á aðra leturlausu hliðina var síðan höggvið stórt krossmark.
Talsvert erfiði var að koma þessum stóra drangi inn í þröngan garðinn, reisa hann og fá honum trygga jarðfestu, en að því verki loknu var lögð umhverfis hann stétt úr stórum og óreglulegum grágrýtishellum. Á þjóðhátíðardegi Frakka, þann 14. júlí 1954, tilkynnir forsætisráðuneytið stjórn kirkjugarðsins að varðinn hafi verið reistur og stéttin lögð. Hafði þá allur reiturinn verið sléttaður, svo hvergi sá lengur til einstakra leiða

(Skjalasafn Kirkjugarða Reykjavíkur)

Minnisvarði yfir Frakkneska sjÛmennMinnisvarðinn í Frakkareit Hólavallagarðs er eitt af fáum minningarmörkum á Íslandi sem samsvarar sér í öllum greinum, formi, strærð, efni, áferð, og þá ekki síst þeirri væmnislausu áletrun sem í hann er greypt. Hún er tekin úr lokakafla sögu Pierres Loti, Pecheur d´Islande, Á Íslandsmiðum, annarsvegar á frummálinu, en hinsvegar í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar. Í neðri reitnum segir síðan, einnig á frönsku og íslenksu, að "STEIN ÞENNA REISTU ÍSLENDINGAR FRAKKNESKUM SJÓMÖNNUM Í VINÁTTU- OG VIRÐINGARSKYNI VIÐ HINA FRÖNSKU ÞJÓÐ".
Þeir sem nú ganga um Frakkareit, sjá aðeins stein þennan, en engin leiði. Undir hvíla þeir þó sem hver átti sína sögu, sína móður, eiginkonu eða systur, sem staðið hafa við Ekkjukrossinn í Paimpol og horft til hafs langa vordagana. Ekkert er þolinmóðara en Vonin.

Á velktum pappír eru til nokkur nöfn (og hér rituð eins og þar):

Couerh, Jean Emile - 1907
Piesnis, Certhur - 1875
Bodo, Joseph - 1888
Guellan, Auguste - 1899
Burk, Jean - 1885
Le Froquer, François - 1895
Kernaonec, François - 1864
Chasboeu, Jean - 1883
Cousin, Jules - 1873
Helary, Jean - 1876
Hyacinthe, Noslier de L'Elisabeth Marie Rip 1876-1919
Garnier, Emile - 1894
S....., Benoit - 1900
Cloarec, François - 1899
Rottier, François -1896
Peujardin, Jaques -1894
Filly, Yves - 1874
Hefflingerta, Baptiste - 1872
Duchemin, Louis - 1871
Melfoy, Leon - 1908
Michel, Yves - 1885
Neupson, Pierre - 1885
Paems, Ange - 1901
Barbu, François - 1901
Vanbille, C. Barles - 1902
Zunquin, ? - 1904
Le Parce, Armand - 1905
Taulin, Pierre Auguste - 1913
Coaziou, Alexandre Elisabeth Maria - 1921
Pubois, Jules - 1908
Robin, Pierre - 1890
le Gondiec, François - 1888
Biarre, Ambroise - 1899
Purand, Eugéne - 1854
Samzoin, Alexis - 1884
Stevan,? - 1883
Robert, Charles - 1882
Vanhille, Leslire - 18877
Menier,? - 1875
Jacob, Yves - 1894
Manier, Pierre - 1900
Corre, Baptiste - 1900
Pietric, Felix - 1899
Le Roy, Yves - 1897
Mydes, Yves - 1896
Creach, Ollvier - 1891
Harmon, Jean - 1873
Menguy, Jean - 1871
Condech,? - 1864
Zoonkin, Alfred - ?
Guefuen, Jean - 1885
Blanchard, Auguste - 1884
Billant, François - 1901
Bernard, Jean 1904
Le Goll, Jean - 1905
Vidament, François Marie - 1913
Gelle,? - 1874-1922
Le Malcat, Vincent, Capitaline de la "Julia" - 1912

Orðin sem yfir þá standa, ðúr hinni frægu sögu Pierres Loti, eru svo látandi:

"IL NE REVINT
JAMAIS ...
UNE NUIT D´AOUT
LÁ-BAS, AU LARGE
BE LA SOMBRE
ISLANDE, AU MILIEU
D´UN GRAND BRUIT
DE FURHERU, AVIENT
ETÉ CELEBRÉES
SES NOGES
AVEC LA MER."

(PIERRE LOTI. PECHEUR D´ISLANDE)

"HANN KOM
ALDREI AFTUR...
ÞAÐ VAR EINA NÓTT
Í ÁGÚSTMÁNUÐI, AÐ
BRÚÐKAUP ÞEIRRA
RÁNAR OG HANS
FÓR FRAM LANGT
NORÐUR Í HÖFUM
ÚTI VIÐ ÍSLAND;
VAR ÞAR SKUGGA-
LEGT UMHORFS
OG HAMFARIR Á
ALLA VEGU."