Rúnasteinninn yfir Sigurð forna

Sjálfsagt hefur það ekki þót vitund skoplegt fyrir eitt hundrað árum er fornminjavörður dubbaði sig upp í ímyndaðan fornmannabúning og settist í ímyndað sögualdaröndvegi í salarkynnum Forngripasafnsins, svo sem það hét þá. Sá sem þannig vafði leggi sína, fór í hlaðbúinn kyrtil og settist upp á pall innan um útskornar stoðir var Sigurður Vigfússon formaður Fornleifafélagsins og umsjónarmaður Forngripasafnsins, en hann tók við því starfi næst á eftir Jóni Árnasyni og annar á eftir Sigurði málara, árið 1882. Sigurður fæddist í Innra-Fagradal í Dalasýslu þann 8. september 1828, en ólst upp í Frakkanesi í sömu sýslu. Tæplega tvítugur hélt hann til Reykjavíkur og hóf þar gullsmíðanám, en stundaði það síðar í Kaupmannahöfn um nær sex ára skeið. Í Höfn var hann samtíma Guðbrandi bróður sínum, síðar meistara í Oxford, og er líklegt að hugur Sigurðar hafi beinst svo mjög að fornminjafræðinni fyrir áhrif Guðbrands. Ekki sótti hann þó neitt nám í þeirri grein. Fyrst eftir heimkomuna var Sigurður að mestu við gullsmíði, smíðaði meðal annars margt kvenskart eftir teikningum Sigurðar málara, og þótti afburðahagur smiður. En eftir að hann tók við umsjá safnsins og fór að huga að rannsóknum sögustaða víðsvegar um landið, lagði hann gullsmíðina sem næst af.

Kalla má að Sigurður Vigfússon gengi af hug og hjarta inn í fornöldina, nánast bókstafstrúar á sagnaheimildir; var enda í almannamunni jafnan kallaður "Sigurður forni". þótt ekki verði séð af skriftum hans að hann hafi verið mikið öðruvísi "en fólk er flest", segja margir vinir hans að hann hafi verið undarlegur í skapi og háttum, og Jón Helgason biskup kalla Sigurð "þann stóreinkennilega mann".

(Jón Helgason: Þer sem settu svip á bæinn, 60)

Sigurður Vigfússon lést þann 8. júlí 1892, aðeins 64 ára að aldri. Eiginkona hans var Ólína María, dóttir I. J. Bonnesens sýslumanns á Velli, og lifði hún mann sinn til ársins 1902. Þau hjón voru barnlaus, Guðbrandur bróðir hans látinn og Forngripasafnið með tóman sjóð, svo ekki varð af því að sinni að nokkur varði eða legsteinn yrði reistur á gröf Sigurðar forna. Liðu svo 25 ár að ekki yrði yrði úr því bætt.
Matthías Þórðarson, sá ágæti maður, varð fornminjavörður árið 1908. ekki var aðeins að hann legði hina mestu rækt við safnið, sem fékk nú inni í hinni nýju og glæsilegu byggingu við Hverfisgötu, heldur var hann og mikill ræktarmaður um minningu forvera sinna í starfinu. Matthías undi því ekki til lengdar að leiði Sigurðar Vigfússonar týndist sem hver önnur ómerkt þúst í garðinum, og á hálfrar aldar afmæli safnsins, þann 24. febrúar 1913, flutti Matthías ræðu og sagði þá: "Jeg hefi í dag - samkvæmt góðum sið við önnur eins tækifæri og þetta vitjað legstað þeirra þriggja síðastnefndu fyrirrennara minna, sem hvíla hjer í Reykjavík. Legstaðir þeirra Jóns Árnasonar og Sigurðar Guðmundssonar eru auðkenndir með bautasteinum, en eigum vjer nú að láta það dragast lengur að leggja stein á leiði Sigurðar Vigfússonar fornfræðings?"

(Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1917)

Ekki var þjóðminjasafn Íslands, svo sem það hét nú, enn í stakk búið til þess að kosta slíkan virðingarvott. Brá Matthías þá á það gamalkunna ráð að leita almennra samskota, og fékk hann þar í lið með sér nokkra ágætismenn, svo sem Klemens Jónsson, Indriða Einarsson og Pálma Pálsson. Uppskeran varð sú, að 210 krónur söfnuðust hjá 65 einstaklingum, þ.e. að meðaltali kr. 3.23 á mann.

O 323

Bautasteinar yfir merkismenn detta ekki undan meitli smiðsins, eigi eitthvað að vanda til. Undir þarf hugsun, næman smekk og dóm um það, að sá steinn sem standa á yfir manninn um aldur og ævi sé að einhverju verulegu leyti ígildi þeirrar minningar. Matthíasi Þórðarsyni var því vandi á höndum, en óhætt er að fullyrða að hann hafi leyst þann vanda með prýði. Hann leitaði til eins kunnasta og besta steinsmiðs bæjarins, Magnúsar G. Guðnasonar, og bað hann að finna bjarg sem standa mætti eitt og óformað af öðrum en Móður Náttúru yfir þennan forvera sinn. Hafi nokkur maður þekkt holtin umhverfis Reykjavík, þá var það Magnús, skólaður í byggingu Alþingishússins og fleiri stórvirkja, enda gekk hann veina leið að því bjargi í Öskjuhlíðinni. Þetta var veðursorfinn steinn, eins og gildur fingur upp í loftið, en meiri og þyngri en svo að nokkur vagn í bænum fengi borið hann. Því varð það að ráði með þeim Matthíasi að bíða til vetrar og láta draga hann á svellum að kirkjugarðinum, sem og var gert. Enn leið nokkur tími, meðan krónurnar drupu í sjóðinn, þar til Matthías var tilbúinn með hugmynd sína og Magnús með meitilinn.
Allir mega nú sjá hvernig það samstarf tókst. Valinn var sléttasta hlið steinsins og ákveðið að höggva í hana miðja útskurðarskreyti á þiljunum frá Möðrufelli í Eyjafirði, sem er í hringaríkisstíl og frá 11. öld. Matthías gerir þó eitt skreyti úr tveimur, notar stóra vindlinginn að neðan af einni fjölinni, en krosslaga háformið af annarri, til þess, svo sem hann segir sjálfur, að gera skreytinu "líkingarfulla merkingu um trúar- og sálar-líf Sigurðar Vigfússonar, því að kristnikross-merking er hjer á steininum lögð í hinn efti hluta myndarinnar, en það krosstrje stendur þó á rótum með rammheiðnum víkingaaldarsvip".

Utan um þetta skreyti er síðan höggvinn rúnabekkur í háum boga, upp eftir steininum og aftur niður að rótum. Svo tæpt er þó á, að víða verður að bjargast við bandrúnir og gera tvo og jafnvel þrjá stafi úr einum. Á hlið þessari stendur, lesið neðan frá vinstri:

REYKVÍKINGAR
REISTU STEIN ÞENNAN
YFIR SIGURÐ
SON VIGFÚSAR
FORSTÖÐUMANN
FORNGRIPASAFNSINS

Ekki er gott um að segja, hvort það hafi verið eftirþanki að bæta nafni Ólínar við, eiginkonu hans, og þó er svo ekki að sjá, þar sem öll áletrunin er undir liðum fornyrðislags, og þá viðbótin líka:

OG ÓLÍNU / EIGINKONU HANS

Viðbótarlínan er leturband, "í líkingu við fornt belti", og er efst sem neðst skreytt með Þórshamri.

Nú var sá vandinn eftir að koma steininum á sinn stað og reisa hann. Slíkt bjarg sem þetta þarf góða undirstöðu, svo það sökkvi hvorki í jörð né hallist. Og hér lagðist þeim félögum óvænt efni til. Þegar Knud Zimsen reisti hús sitt, Gimli, við Lækjargötu, gerði hann brú á Lækinn framundan því, en nú hafði Lækurinn verið byrgður og stéttarhellurnar því óþarfar lengur. Bauð Zimsen þær fram, og voru þær nú hafðar í undirstöðu bautasteinsins og látnar mynda dálítinn hól, til að minna á fornan haug. Er þetta allt með óbreyttum ummerkjum, og stendur steinninn enn, stoltlegur og fallegum skófum þakinn, eins og hann var upphaflega settur.

(Árni Óla: Sagt frá Reykjavík, Rvík 1966, 257.)

Ekki hrökk það fé til sem safnast hafði. Var nú enn leitað eftir samskotum og fengust saman 140 krónur. Nægði það svo ríflega að 50 krónur gengu af, og skyldi vöxtum af þeim sjóði varið til viðhalds steininum. Verkinu var lokið í júlí 1917, svo síðan eru liðin rúm sjötíu ár. Er því hætt við að á sjóði þeim hafi sannast öfugmælið: Græddur er geymdur eyrir!