"Steinköggull með hörpu-mynd"

Oft var á Íslandi ómælisbil milli skáldadrauma og nakinnar raunveru, en sjaldan þvílíkt sem á milli hins örsnauða og dæmda drykkjumanns, Sigurðar Breiðfjörðs, hetjurímsins í rímum hans. þegar af skáldinu bráði, biðu kapparnir eftir honum, ólmir að komast til nýrra afreka í landinu þar sem hallir gnæfa en drekar spúa og tignarháar meyjar leiða riddarann á sinn mjúka bing:

Vegurinn líður, vér oss flýtum,
við mig síður fyrtist þér!
Númi ríður hesti hvítum,
hann var að bíða eftir mér.

Það veru þó hvorki bragvinir né bardagahetjur sem biðu eftir lausn skáldsins vonda nótt í hreysinu Grjóta þann 21. júlí 1847. Aðeins Kristín kona hans og Jens sonur þeirra sátu yfir hinum dauðvona manni, útsteyptum í mislingum; og rétt sem morgunsólin lýsti upp Grjótaþorpið, skildi hann við. Hún hafði látið ljós loga við flet hans, þrátt fyrir sumarbláma næturinnar, en nú drap hún á kveiknum milli fingra sér og hallaði sér út af við hlið hans; engum var frá að segja.

Það kostaði talsverða eftirgangsmuni að fá mann til þess að slá utan um líkið, og þegar nokkrir fátæklingar vékust undir bón Kristínar, að bera það í kirkjuna, hélt séra Ásmundur ekki neina ræðu, fór aðeins með bænastúf, og síðan gengu líkmennirnir fjórir undir kistunni leiðina löngu suður á Hólavöll. Á stöku stað stóðu karlar, nugguðu sér upp við húsvegg og mændu á, konur framar við veginn og drógu þértt að sér sjölin. Á eftir kistunni gengu aðeins þau tvö, Kristín Illugadóttir og Jens litli Baggesen; presturinn langt í humátt á eftir. Þótt þau Kristín hefðu tæpast verið ektahjón nema fyrir guði, hafði hún borið einbaug á fingri. Nú tóku glögg augu eftir því, að hann var horfinn af hendi hennar. Ekki sagði séra Ásmundur heldur neitt suður í garði, nema þetta um moldina, kastaði þrem rekum og var horfinn. Þegar mokað hafði verið yfir, struku líkmennirnir af sér moldina á buxnaskálmunum og tóku snöggt í höndina á Kristínu og litla nafna dansa skáldsins, sem endinn þeirra hafði þó heyrt nefnt. Kristín og litli Baggesen stóðu lengi eftir og horfðu niður í melborinn moldarbinginn. Í morgun var þeim úthýst úr Grjóta: hvert lá nú leiðin á þeirra fátæku jörð?

(Gísli Konráðsson: Ævisaga Sig. Breiðfjörðs skálds, Ísaf.,1 1948.)

(Ólöf Hjálmarsdóttir: Þáttur af Sigurði Breiðfjörð, Blanda 8, 360-65.)

Þegar holdið er horfið undir mold, en minning og andi lifa eftir, umbreytist maðurinn fyrir sjónum tímans. Ungir menn í Reykjavík týndu því ekki niður hvar gröf Sigurðar var, og smám saman verður hann píslarvottur rangsleitninnar í lífi manna. Nokkrum árum síðar skrifar Matthías Jochumsson í bréfi til Steingríms Thorsteinssonar þessi orð: "Hitt blöskrar mér að á meðan Jón Þorláksson deyr úr hungri og kröm og týnist dauður innanum moldarþúfurnar á Bægisá, meðan Sigurður Breiðfjörð er að syngja svanasöng sinn og dyja niðri í Hákonsens húsi úr lús og lambasótt, á meðan eru þessir lotinn-höfuðsóttarkóngar að húðfletta heila þjóð." Kirkjubókin segir Grjóti en ekki Hákonsenshús, en um það og sjúkdómsgreininguna fer "communistinn" Matthías eftir sínu skáldaleyfi. Og smám saman fara að hlaðast saman steinar á gröf þess sem Jónas Hallgrímsson greiddi svo þungt högg í Fjölni forðum; gullið er að sáldast frá leirnum.

(Bréf Matthíasar Jochumssonar, Ak. 1936, 34.)

Í ársbyrjun 1861 var stofnað í Reykjavík merkilegt félag og með enn merkilegra nafni: Leikfélag andans. Það var einskonar leyniklúbbur ungra menntamanna til þess að ræta um "fróðleg og vísindaleg efni" og hvað eina sem að þjóðlegri fegurð lýtr". Má í þeim orðum heyra óm af eldlegri hugsjón Sigurðar málara, sem nýlega var kominn heim eftir nær áratugar listnám í Kaupmannahöfn, og þegar skólapiltinum Matthíasi Jochumssyni var boðin innganga á vorfundi sama ár, áttu listir og skáldskapur þar hauka í horni. Það var enda þegar á næsta ári, 1862, sem leyndarsamtök þessi - er nú nefndust einnig Kveldfélagið - ákváðu að safna fé til ritunar ævisögu Sigurðar Breiðfjörðs, og nokkru þar á eftir að reisa legstein á gröf hans. Lærður steinsmiður hafði þá nýlega setzt að í bænum, kominn frá námi í Kaupmannahöfn, Sverrir Runólfsson að nafni, og nú var Sigurði málara falið að búa verk þetta í hendurnar á Sverri. "Ljót er fátæktin", segir Matthías í bréfi til Steingríms skáldbróður síns vorið 1865. "Það er bezt að ég segi eins og Sigðurður Breiðfjörð (við erum nú nokkrir ungir menn að koma íslenskum steinköggli með nafni hans og hörpu-mynd á hans hrunda kuml)." Um haustið er verkinu lokið, og hann skrifar Steingrími enn: "Við höfum sett Sigga Breiðfirði stein, ísl(enzkan), eins og bust í laginu með nafni hans á." Það er engin furða þótt Matthías segi í báðum bréfunum, að þessi "bustlaga" "steinköggull" sé íslenskur, því hann er ekki aðeins fyrsti legsteinninn sem reistur var í Hólavallagarði, heldur jafnframt sá fysti úr íslensku grjóti.

(Bréf Matthíasar Jochumssonar, Ak. 1936; 25, 31.)

R 520.

Þótt Matthíasi þyki auðheyrilega ekki mikið til þessa minnisvarða koma - eða láti sem svo, var slíkt lítillæti tilefnislaust. Steinninn er, þar sem hann nú stendur ( í reit R 520, en því miður ekki lengur á leiði Breiðfjörðs, sem fór undir víkkun gangstígsins að líkhúsinu), sterklegt og hreinlát smíð, burstlaga eða líkari dropa í laginu, með hárri, upphleyptri hörpu og stórkarlalegu letri Sverris undir: SIGURÐUR BREIÐFJÖRÐ 1799-1846. Hann er í raun frumlegra og kraftmeira verk en margur sá steinn í garðinum sem af meiri íþrótt og nostri er höggvinn.

Oftlega má sjá ungt fólk koma í einskonar pílagrímsferð í kirkjugarðinn og leita að leiði Breiðfjörðs. Það er þó ekki vegna þess að það hafi sökkt sér niður í rímur af Núma eða þeim Tristrani og Indiönu, hedlur af því að það gengur þar í spor annars fátæks skálds, Ólafs Kárasonar í Ljósvíkingi Halldórs:

"Leið hans liggur í mörgum krákustígum úr tukthúsinu í kirkjugarðinn. Sá vinur sem hann átti fyrstan, og vitjaði hans í gullinni reið þegar allir voru búnir að gleyma honum, þennan ætlaði skáldið að finna. Ekkert sem skáldið hafði séð í höfuðborginni jafnaðist á við þennan kirkjugarð, hve stórfeinglegt að slíkur lystigarður skyldi blómgast í kríngum dáin bein."

(Halldór Laxness: Fegurð himinsins, 1940, 196.)

Loks finnur hann legstein skáldvinar síns, með hjálp gamallar innangarðskonu. "Streingirnir fimm á hörpu skáldsins, það voru streingir gleðinnar, sorgarinnar, ástarinnar, hetjuskaparins og dauðans. Ólafur Kárason Ljósvíkingur strauk fyrst höndum varlega um kaldan steininn, lét síðan fíngurgóma sína snerta fimm streingi steinhörpunnar í nafni allra fátækra alþýðuskálda sem uppi hafa verið á Íslandi, og þakkaði skáldinu fyrir að hann skyldi hafa komið til sín akandi í gullinni reið ofanaf himnum, þar sem hann átti heima."

(Halldór Laxness: Fegurð himinsins, 1940, 200-201.)