Þjónusta

Umhirða leiða

Starfsmenn Kirkjugarða Reykjavíkur sjá um slátt og sléttun leiða yfir sumartímann. Hægt er að óska sérstaklega eftir að mold sé bætt á leiði sem hafa sigið og sáð sé í þau og að nýleg leiði séu jöfnuð og tyrfð.

Hirðing og hreinsun á leiðum er í höndum aðstandenda en vatnspóstar og vökvunarkönnur eru víða um garðana sem aðstandendur geta notað. Ekki er leyfilegt að planta trjákenndum plöntum og sumum fjölæringum á leiði en starfsmenn kirkjugarðanna veita nánari upplýsingar um leyfilegan gróður á leiðum. Blómabeð við kistuleiði eru að jafnaði 60×80 cm.

Ekki er leyfilegt að setja girðingar eða hellur umhverfis leiði.

Legsteinar

Duftgarður Gufunesi

Mælst er til þess að legsteinar séu ekki settir á kistuleiði fyrr en ári eftir jarðsetningu. Einnig er mælst til þess að steinar séu ekki settir upp á tímabilinu frá nóvember og út mars. Um stærð og frágang minnismerkja í umdæmi Kirkjugarða Reykjavíkur gilda ákveðnar reglur. Markmið reglnanna er að tryggja að legsteinar séu settir niður á grafreiti með samræmdum og skipulögðum hætti. Steinsmiðir og legsteinasalar þekkja reglurnar og geta leiðbeint aðstandendum en upplýsingar fást einnig hjá skrifstofu Kirkjugarða Reykjavíkur. Allir sen hyggjast setja minnismerki á leiði skulu sækja um það á sérstöku formi hér á heimasíðunni.

Viðgerðir á minnismerkjum, svo sem viðgerð á steypuskemmdum og vinna við að rétta legsteina, er í höndum aðstandenda. Kirkjugarðar Reykjavíkur bjóða upp á að rétta legsteina gegn gjaldi.

Lög og reglur

Kirkjugarðar Reykjavíkur starfa eftir lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 og reglugerð nr. 668/2007 um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu.

Kirkjugarðar eru friðhelgir samkvæmt lögum. Starfsfólk og stjórn Kirkjugarða Reykjavíkur mælist til þess að umgengni um kirkjugarðana endurspegli kyrrð og kærleika en nánar má sjá reglur um umgengni í Kirkjugörðum Reykjavíkur hér: Reglur um umgengni í Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma 810/2000 og Reglur um breytingu á reglum um umgengni í Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma 816/2009

Andlát og útfarir

Við andlát er að mörgu að huga og kjósa flestir að leita til útfararþjónustu varðandi ráðleggingar um næstu skref. Útfararþjónustur leiða aðstandendur í gegnum ferlið við andlát og aðstoða við undirbúning og skipulag útfarar. Hægt er að senda inn ósk um skipulag útfarar hér.

Útför getur verið tvenns konar, annars vegar jarðarför þar sem kista er borin til grafar og jarðsett í kirkjugarði og hins vegar bálför þar sem kistan er brennd og aska hins látna jarðsett í sérstökum duftkerjum. Duftker eru svo jarðsett í sérstökum duftreit í kirkjugarði eða ofan á kistu með leyfi tengilið  leiðis. Hér má finna bækling um duftgarða – Duftgardar_KirkjugardaRVK. Einnig er leyfilegt að dreifa ösku látinna að fengnu leyfi frá sýslumanni. Allir sem eru sjálfráða og hafa ákveðið bálför að lífi loknu geta skrifað undir yfirlýsingu um bálför hér.

Fólk í öllum trúfélögum og utan þeirra á lögvarinn rétt á legstað í þeirri sókn sem það andaðist eða var síðast heimilisfast eða þar sem aðstandendur óska legstaðar. Kjósi aðstandendur að leita til útfararþjónustu sjá þær um samskipti við Kirkjugarða Reykjavíkur varðandi úthlutun á leiðum og að taka frá leiði við hlið hins látna sé þess óskað.

Útfararþjónustur selja krossa á leiði.